Innlent

Norðurál vill kaupa orku Þjórsár

Norðurál hefur óskað eftir því við Landsvirkjun að fá að kaupa tvo þriðju af orku Þjórsárvirkjana til fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Þetta myndi hraða uppbyggingu álvers þar en um leið útiloka möguleika Alcan á næstu árum til að stækka í Straumsvík eða að reisa nýtt álver suðvestanlands.

Forgangur Alcan í Straumsvík að orku væntanlegra Þjórsárvirkjana er úr sögunni, eins og fram kom í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi, og hefur Landsvirkjun nú opnað á viðræður við önnur fyrirtæki um nýtingu orkunnar. Norðurálsmenn voru fljótir að grípa tækifærið. Þeir funduðu með Landsvirkjunarmönnum á fimmtudag og lýstu þar yfir áhuga sínum á að kaup um 200 megavött af þeim 300 sem hugsanlega verða í boði. Norðurálsmenn stefna að því að hefja framkvæmdir í Helguvík á næsta ári og vilja meiri raforku til að tryggja hraðari og samfelldari uppbyggingu álvers þar á næstu fimm til sex árum.

Landvirkjunarmenn ætla hins vegar á næstum vikum einnig að ræða við um tug annarra fyrirtækja, sem lýst hafa áhuga á miklum raforkukaupum. Fái Norðurál að kaupa tvo þriðju orkunnar gæti þriðjungurinn sem eftir er dugað til að mæta óskum netþjónabúa. Það yrði hins vegar vart rúm fyrir Alcan né önnur álfyrirtæki til uppbyggingar suðvestanlands á næstu árum. Hugmyndir um stækkun í Straumsvík eða um nýtt álver í Þorlákshöfn eða á Keilisnesi færu þá í salt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×