Innlent

Astrópía valtar yfir Bourne Ultimatum

Fjallað um Astrópíu í erlendum fjölmiðlum.
Fjallað um Astrópíu í erlendum fjölmiðlum.

Aðsókn á kvikmyndina Astrópíu hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði bandaríska kvikmyndablaðsins Screen International. Þar þykir það eftirtektarvert að á sama tíma og aðsókn á stórmyndina Bourne Ultimatum dregst saman hérlendis eykst aðsókn á Astrópíu.

„Við erum að vonum mjög ánægðir með þessa umfjöllun," sagði Ingvar H. Þórðarson, framleiðandi Astrópíu, í samtali við Vísi. „Þetta er fín auglýsing og á eflaust eftir að hjálpa okkur þegar við förum með myndina í dreifingu erlendis. Þessi umfjöllun Screen International hefur einnig vakið athygli hjá Warner Brothers."

Í nýjasta tölublaði bandaríska kvikmyndablaðsins Screen International er fjallað um aðsókn á kvikmyndina Bourne Ultimatium víðs vegar um heim. Í greininni vekur það athygli að aðeins á Íslandi fer myndin ekki í fyrsta sæti heldur þarf að víkja fyrir myndinni Astrópíu.

Fyrstu viku frá frumsýningu féll aðsókn á Bourne Ultimatum um 49 prósent á Íslandi en á sama tíma jókst aðsókn á Astrópíu um eitt prósent. Þá segir ennfremur í greininni að greinilegt sé að Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, aðalleikona Astrópíu, valti yfir leikarann Matt Damon á Íslandi.

Yfir 25 þúsund manns hafa séð Astrópíu frá því myndin var frumsýnd í lok síðasta mánaðar. Ingvar segist búast við því að aðsóknin fari yfir 30 þúsund um helgina. „Við reiknum með að fara yfir 30 þúsund manns um helgina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×