Innlent

Hvetja fólk til að velja annan ferðatíma á morgnana

Umferð getur verið þung á höfuðborgarsvæðinu.
Umferð getur verið þung á höfuðborgarsvæðinu. MYND/365

Ökumenn á höfuðborgarsvæðinu eru hvattir til að velja annan ferðatíma á morgnana til vinnu eigi þeir þess kost til að draga úr umferðarþunga. Þetta kemur fram í frétt frá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar. Aðstoðarsviðsstjóri segir ekki hægt að hanna gatnakerfi sem getur annað þeim umferðarþunga sem verður þegar allir leggja af stað á sama tíma.

Fram kemur í frétt framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar að umferðarstíflur myndist þar sem stór hópur fólks fer af staða á morgnana á sama tíma. Flestir miði við að vera mættir í vinnu eða skóla upp úr klukkan átta. Fólk sem hefur sveigjanleika til að fara seinna eða fyrr af stað er hvatt til að gera svo.

Að sögn Ólafs Bjarnasonar, aðstoðarsviðsstjóra framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, næst hámarksflutningsgeta gatnakerfisins þegar umferðarhraði er um 50 til 60 kílómetrar á klukkustund og eru umferðarljós still miðað við þann hraða. Þá segir Ólafur að bílaeign og fólksfjöldi sé það mikill í borginni að stíflur í gatnakerfinu séu óumflýjanlegar þegar allir leggja af stað á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×