Innlent

Ráðherrabílaflotinn metinn á 90 milljónir

Ráðuneytin hafa á að skipa fínasta bílaflota.
Ráðuneytin hafa á að skipa fínasta bílaflota. MYND/Teitur

Ráðuneyti Stjórnarráðsins hefur á að skipa fríðum flota bifreiða. Samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu er bifreiðar í eigu ráðuneytana 26 talsins. Lauslega áætlað má ætla að bílarnir séu metnir á um 90 milljónir króna.

Það er fjármálaráðherrann sjálfur sem ekur um á dýrasta bílnum, Land Rover Discovery 2007 árgerð sem metin er á um 6,2 milljónir. Ódýrasta kerran er hins vegar sennilega forláta Subaru Impreza í eigu sama ráðuneytis en hann er metinn á vef bílgreinasambandsins á hálfa milljón króna.

Á meðal annara glæsivagna má nefna tvinnbíla Utanríkis- og heilbrigðisráðherra, Lexus GS450h. Umhverfisráðherrann Þórunn Sveinbjarnardóttir er einnig á Lexus, RX400 H jeppa.

Ef notast er við reiknivél á vefsíðu Bílgreinasambandsins má áætla að bílarnir séu til samans metnir á rúmar 90 milljónir króna. Þess ber þó að geta að fjórar bifreiðanna eru núna í sölumeðferð hjá Ríkiskaupum og viðskiptaráðuneyti stendur nú í kaupum á Volvo XC90 jeppa.

Þá er ótalinn bíll nóbelskáldsins Halldórs Laxness. Jagúar bifreið hans frá árinu 1968 er skráð á forsætisráðuneytið og er hún ekki inni í heildartölunni þar sem erfitt er að meta bílinn til fjár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×