Innlent

Þegar búið að panta 20 þúsund eintök af Krosstré í Þýskalandi

Vinsældir íslenskra glæpasagnahöfunda virðast engan endi ætla að taka. Jón Hallur Stefánsson, sem nefndur hefur verið krónprins íslensku sakamálasögunnar, er að byrja að herja á Þýskalandsmarkað og kemur bók hans, Krosstré, út á morgun.

Eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá Bjarti er það þýska bókaútgáfan List sem gefur út Krosstré og hafa þegar verið pöntuð 20 þúsund eintök af bókinni. Því hefur bókin verið endurprentuð þrátt fyrir að hún sé formlega ekki komin út. Krosstré kom út í Noregi í sumar og hlaut þar mjög góðar viðtökur hjá ritdómurum blaðanna. Þá er hún væntanleg í þýðingu í Frakklandi, Danmörku, Hollandi, Spáni og víðar á næstu mánuðum.

Jón Hallur fylgir í fótspor Arnaraldar Indriðasonar en glæpasögur hans hafa notið mikilla vinsælda í bæði Þýskalandi og Frakklandi. Þá hefur bók Árna Þórarinssonar, Tími nornarinnar, einnig fengið góðar viðtökur í Frakklandi og þurfti einnig að endurprenta þá bók vegna fjölda biðpantana í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×