Innlent

Unglingar hætta lífinu til að stelast í heitan pott í Spönginni

Líkamsræktarstöðin World Class er með stóran nuddpott á þaki verslunarmiðstöðvarinnar í Spönginni í Grafarvogi. Svo virðist sem potturinn sé orðinn býsna vinsæll griðastaður meðal unglinga í hverfinu, ekki meðan opið er, heldur í skjóli nætur.

Miðað við hæð hússins er ljóst að unglingarnir leggja sig í verulega hættu við að komast upp á þak þess þar sem hinn girnilegi pottur er staðsettur.

Lögreglan í Grafarvogi hafði hendur í blautu hári sextán ára gamallar stúlku í nótt sem hafði verið uppi á þaki; en þau sem voru að lauga sig með henni hurfu rennvot á harðahlaupum úti í nóttina. Stúlkunni var ekið heim til sín.

Aðkoman hjá starfsmönnum Wold Class í morgun var ekki glæsileg en sígarettustubbar lágu á víð og dreif við pottinn.

Þess þarf varla að geta að viðskiptavinir World Class liggja ekki undir grun en starfsmenn World Class sitja nú yfir myndbandsupptökum til að finna út hverjir hafa verið að gamna sér í pottinum að næturlagi og reykja þar vindlinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×