Innlent

Segir framsal vatnsréttinda stjórnarskrárbrot

Álfheiður Ingadótttir, þingmaður Vinstri - grænna, telur að framsal þriggja ráðherra á vatnsréttindum í neðri hluta Þjórsár til Landsvirkjunar sé skýrt brot á stjórnarskránni enda hafi ekki verið leitað lagaheimildar fyrir því. Hún segir það siðleysi og fordæmalausa ósvífni af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar að gera þetta án nokkurs fyrirvara.

Fyrrverandi landbúnaðarráðherra, fyrrverandi iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra gerðu fyrir hönd ríkisins samning við Landsvirkjun um framsal á vatnsréttindunum aðeins þremur dögum fyrir þingkosningar í vor. Framsalið er gert í tengslum við áform Landsvirkjunar um þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár, Urrriðafossvirkjun, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun en ríkið átti 95 prósent vatnsréttinda sem sneru að þeim.

Vinstri - græn hafa óskað eftir því að Ríkisendurskoðun fari yfir málið enda sé samkomulagið gert án vitundar Alþingis, landeigenda og sveitastjórna á svæðinu og almennings.

Álfheiður segist mætavel skilja hvers vegna slík leynd hafi hvílt yfir samkomulaginu. „Það er vegna þess að það eru engar heimildir fyrir því og þetta er gert á bak við Alþingi. Þetta er að mínu mati skýrt brot á 40. grein stjórnarskrárinnar," segir Álfheiður en samkvæmt þeirri grein má ekki skuldbinda ríkið né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Þá vísar Álfheiður einnig til fjárreiðulaga sem kveði á um sams konar heimildir.

Þá segir hún ámælisvert í málinu að sveitarfélagi, í þessu tilviki Flóahreppi, hafi verið synjað um forkaupsrétt á jörðinni Þjótanda þar sem landbúnaðarráðuneytið hafi skuldbundið sig til að ræða við Landsvirkjun um kaup á jörðinni vegna framkvæmdanna.

Álfheiður telur að samkomulagið hafi verið undirritað þar sem menn hafi verið orðnir hræddir. „Menn vildu að Landsvirkjun hefði allt sitt á hreinu. Með þessu er verið að kippa burt allri samningsstöðu landeigenda á svæðinu. Landsvirkjun segir bara núna: „Við eigum öll vatnsréttindi á svæðinu,"" segir Álfheiður en töluvert hefur verið deilt um virkjanirnar þrjár og eru skiptar skoðanir meðal landeigenda um þær.

Álfheiður efast stórlega um að samkomulagið standist og segir eðlilegast að samkomulagið verði gert ógilt og menn setjist þá að samningaborðinu og semji um kaup vatnsréttindanna. Hún bendir enn fremur á að þótt Landsvirkjun sé ríkisfyrirtæki eigi hún að starfa á samkeppnismarkaði og því sé eðlilegast að fyrirtækið borgi fyrir réttindin.

Aðspurð segist Álheiður ekki eiga von á öðru en að Ríkisendurskoðun taki málið til skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×