Lífið

Megas í fyrsta sinn í Höllinni

Megas og Senuþjófarnir ætla að fylla Laugardalshöllina 13. október.
Megas og Senuþjófarnir ætla að fylla Laugardalshöllina 13. október.

Laugardaginn 13. október næstkomandi mun tímamótaviðburður eiga sér stað í íslensku tónlistarlífi þegar Megas stígur á stokk í Laugardalshöllinni og heldur sína allra fyrstu stórtónleika ásamt Senuþjófunum.

Samstarf þeirra Megasar og Senuþjófanna gat af sér plötuna Frágang í sumar sem er fyrsta plata Megasar í 6 ár og fyrsta plata hans með hljómsveit í 17 ár. Á tónleikunum í Laugardalshöll munu Megas og Senuþjófarnir flytja öll helstu lög Megasar í bland við lög af nýju plötunni.

Ísleifur Þórhallsson sem stýrir tónleikunum fyrir hönd Concert segir tónleikana leggjast ótrúlega vel í aðstandendur þeirra. "Mikill hiti er í kringum Megas þessa dagana og hefur nýju plötunni verið mjög vel tekið. Eins hafa tónleikar Megasar og Senuþjófanna undanfarið heppnast mjög vel." Ísleifur segir samstarfið við Senuþjófana leggjast mjög vel í Megas og að það skíni í gegnum tónleikana. Hann segir Megas, sem aldrei hefur haldið tónleika af þessari stærðargráðu fyrr, virðast vera í góðu stuði.

Megas og Senuþjófarnir hafa undanfarið haldið tónleika vítt og breitt um landið. Á döfinni eru síðan tónleikar á Ísafirði og Akureyri og verða þeir undanfari tónleikanna í Laugardalshöll.

Áætlað er að miðasala á tónleikana í höllinni hefjist í byrjun september. Um 2.500 aðgöngumiðar verða í boði og einungis verður selt í númeruð sæti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.