Innlent

Norska fjármálaeftirlitið grunar að Kaupþing hafi brotið lög

Sighvatur Jónsson skrifar

Norska fjármálaeftirlitið grunar að lög hafi verið brotin með kaupum Exista á hlutum í norska tryggingafélaginu Storebrand. Eignartengsl Exista við Kaupþing verða skoðuð í þessu sambandi.

Eftir kaup fjármálafyrirtækisins Exista í Storebrand, er hlutur þess kominn yfir 5 prósent. Exista á fjórðung í Kaupþingi, svo sameiginlegur hlutur félaganna í norska tryggingafélaginu er þá rúmlega 25 prósent. Það er 5 prósentum meira en Kaupþing má eiga, samkvæmt undanþágu frá norskri reglu um 10 prósenta hámarkseign.

Á forsíðu danska blaðsins Dagens Næringsliv í dag er mynd af íslensku bræðrunum Lýði og Ágústi Guðmundssyni. Blaðið hefur eftir Ole Jörgen Karlsen, hjá norska fjármálaeftirlitinu, að tilraun Íslendinga til yfirtöku norska tryggingafélagsins verði rannsökuð. Hann útilokar ekki að haft verði samband við íslenska fjármálaeftirlitið vegna málsins.

Svipuð frétt birtist á vef bandaríska blaðsins Forbes í morgun. Þar er haft eftir sama manni frá norska fjármálaeftirlitinu, að ekki hafi verið ákveðið hvort málið verði formlega tekið fyrir hjá eftirlitinu. Hafi verið samvinna hjá félögunum sé það brot á lögum.

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, segir félögin ekki vinna saman og að reglum sé fylgt. Kaup Exista hafi ekki verið gerð í samvinnu við Kaupþing.

Hjá Fjármálaeftirlitinu fæst þær upplýsingar að regluleg samskipti séu við fjármálaeftirlit á hinum Norðurlöndunum, en að stofnunin tjái sig ekki um einstök mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×