Innlent

Atvinnuháttum og ferðaþjónustu er ógnað með nýjum Vestfjarðaveg

Fulltrúi landeigenda í Þorskafirði segir að atvinnuháttum í Reykhólasveit verði ógnað með nýjum vestfjarðavegi sem mun liggja út norðanverðan Þorskafjörð. Vegurinn setur einnig ferðaþjónustu á svæðinu í uppnám segir landeigandi.

Fulltrúi landeigenda á Gröf í Þorskafirði, Gunnlaugur Einarsson, fullyrðir að skógi og arnarvarpi sé ekki einungis ógnað með nýjum Vestfjarðavegi út Þorskafjörð því ferðaþjónusta sé jafnframt sett í uppnám á svæðinu. Þá verði Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum gert erfitt fyrir með þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar.

Þörungaverksmiðjan er stærsti atvinnurekandi í Reykhólasveit en hjá fyrirtækinu starfa 26 manns. Verksmiðjan vinnur afurðir úr þangi og þara en hráefnið er fengið úr Breiðafirði og einnig sótt í Djúpafjörð og Gufufjörð. Blómlegur rekstur er á fyrirtækinu en það skilaði hagnaði á síðasta ári.

Halldór Óskar Sigurðsson, framkvæmdastjóri, segir að ef Djúpifjörður lokast algerlega minnki framleiðsla um þúsund tonn á ári. Því sé mikilvægt að þangskurðarprammi komist undir þá brú sem kunni að verða smíðuð.

Landeigendur vilja reyna að hnekkja ákvörðun umhverfisráðherra fyrir dómi en þeir segja að ráðherra hafi brotið lög með því að heimila lagningu Vestfjarðavegar um Teigsskóg í Þorskafirði.

Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á Patreksfirði, sem mjög hefur barist fyrir vegabótum á sunnanverðum Vestfjörðum, telur að þessi kæra landeigenda muni ekki tefja vegagerð á þessu svæði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×