Innlent

Umferð verður hæg um Mosfellsbæ um verslunarmannahelgina

Jón Hákon Halldórsson skrifar
MYND/Daníel

Umferð um Mosfellsbæ er nokkuð hægari þessa dagana en venja er. Þetta ástand mun vara fram yfir verslunarmannahelgi. Ástæðan er sú að unnið er við vegaframkvæmdir á hringtorgi á mótum Vesturlandsvegar og Þingvallavegar. Umferð um hringtorgið hefur verið hliðrað til vesturs og er nú ekið um vestari hluta þess. Jafnframt hafa vegamót við Þingvallaveg verið færð um 100 metra til suðurs.

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að þær framkvæmdir sem séu við Þingvallaveg geti vissulega hægt á umferðinni en það geti jafnvel gert hana öruggari. Hann segir lögregluna vilja hafa umferðina hæga á þessum gatnamótum því þau geti verið hættuleg ef ekið sé hratt um þau.

Guðbrandur segir að lögreglan hafi haft töluverðar áhyggjur af helgarumferð í sumar, sérstaklega í lok júní og í allan júlí. Hún hafi verið mjög þung. Hann segir ekki ástæðu til þess að hafa áhyggjur af umferð um verslunarmannahelgina umfram aðrar helgar í sumar. Umferðin geti jafnvel verið öruggari þá því að straumurinn muni dreifast á fleiri daga en um aðrar helgar. Hann segir að lögreglan muni verða með virkt umferðareftirlit í Mosfellsbæ um verslunarmannahelgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×