Innlent

Samfylkingin svíkur kosningaloforð segja andstæðingar virkjana í Þjórsá

Guðfinnur Jakobsson bóndi í Skaftholti segir að Samfylkingin sé að svíkja kosningaloforð verði virkjanir í neðri hluta Þjórsár að veruleika. Heimamenn sem eru andsnúnir virkjununum þremur hittu iðnaðarráðherra að máli í vikunni og segja að hann hafi ekki útilokað að tekið yrði eignarnám vegna framkvæmdanna.

Össur Skarphéðinsson sagði við Stöð 2 í dag að hann hefði aldrei gefið það út, hvorki á fundum með andstæðingum virkjana við Þjórsá, né annars staðar að hann styddi hugsanlegt eignanám.

Guðfinnur, bóndi í Skaftholti við Þjórsá, telur að fari sem horfir sé Samfylkingin að svíkja kosningaloforð sín sem snúast um það sem hann kallar algjöra stöðvun á frekari virkjunarframkvæmdum.

Andstæðingar virkjana segjast núna róa lífróður gegn virkjunaráformum Landvirkjunar og komu saman í dag við minni Þjórsárdals þar sem mikið land á að fara undir vatn að þeirra sögn. Þar hafa andstæðingar virkjunar sett upp skilti til að sýna hvar vatnsyfirborðið verður, komi til virkjunar í Þjórsá.

Ólafur Sigurbjörnsson í Forsæti við Þjórsá segir að ekki sé einungis við virkjunarframkvæmdir að etja í baráttunni við Landsvirkjun og stjórnvöld, heldur sé áformað að setja niður virkjun á miklu sprunugusvæði sem geti haft geigvænlegar afleiðingar.

Þá segir Ólafur að ekki sé staðið eðlilega að virkjunarframkvæmdum því sami aðili hanni virkjunina og sjái um áhættumat vegna hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×