Innlent

Frestað að taka ákvörðun um hugsanleg kaup á hlutum í HS

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur frestaði því fram yfir helgi að taka ákvörðun um hvort fyrirtækið kaupi hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Stjórnin kom saman til fundar í morgun en leiddi ekki málið til lykta þar.

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitunnar, sagði fjölmörg sveitarfélög sem eiga hlut í Hitaveitunni, hafa haft samband við Orkuveituna með það fyrir augum að selja henni hlut sinn. Hann vildi ekki gefa upp hvaða sveitarfélög það væru, en sveitarfélög á Suðurnesjum og Suðurlandi eiga hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Þar á Reykjanesbær stærstan hlut, eða tæp 40 prósent, og Hafnarfjarðarbær á 15 prósent.

Sveitarfélögin sem eiga í Hitaveitunni eiga forkaupsrétt á 15 prósenta hlut ríkisins í Hitaveitunni sem ákveðið var að selja á dögunum. Frestur til að nýta þann rétt á rennur út á þriðjudag. Geysir Green Energy átti hæsta boð í þennan hlut en sem fyrr segir geta sveitarfélögin enn nýtt forkaupsrétt sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×