Innlent

Segir ferðaskrifstofur lengur að lækka verð en hækka

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Formaður Neytendasamtakanna gagnrýnir hversu illa og seint hækkun á gengi íslensku krónunnar skilar sér í lægra verði ferðaskrifstofa. Þrátt fyrir töluverða hækkun á gengi krónunnar undanfarið hafa ferðaskrifstofur ekki lækkað verð.

Síðasta vor hækkuðu ferðaskrifstofurnar verð á sólarlandaferðum sínum þegar krónan lækkaði nokkuð skart. Skrifstofurnar greiða fyrir flug og gistingu í erlendri mynt og er heimilt að hækka verð samkvæmt ferðaskilmálum.

Ferðaskrifstofur hér á landi gáfu flestar út bæklinga með sólarlandaferðum sínum fyrir síðustu áramót en þar voru gefin upp verð. Til að tryggja sér sæti pöntuðu margir ferðir í byrjun árs. Síðan þá hefur gengi krónunnar hækkað nokkuð en í kringum áramótin var evran til að mynda í kringum 90 krónur en er nú tæpar 84 krónur.

Þrátt fyrir þessa hækkun á gengi krónunnar hafa ferðaskrifstofur ekki lækkað verð á ferðum sínum. Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, gagnrýnir að ferðirnar skulu ekki lækkaðar þegar svo skamman tíma tók fyrir ferðaskrifstofurnar í fyrra að hækka ferðir sínar. Hann segir marga hafa haft samband við Neytendasamtökin vegna þessa.

Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, sagði í samtali við fréttastofu í dag að hjá Heimsferðum hefði engin ákvörðun verið tekin um að lækka verð en verið væri að fara vandlega yfir málið í ljósi þróunar gengisins.

Ef verð ferðar í heild sinni lækkar eða hækkar um 5% þá er staðan endurmetin en í inni í því er kostnaður við gistingu, eldsneyti og fleira. Tómas segir að ef fram haldi sem horfi og krónan styrkist enn frekar þá muni verð á ferðum lækka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×