Innlent

Stórskipahöfn við Keilisnes?

Borgarafundur í Vogum á Vatnsleysuströnd samþykkti í gærkvöld með miklum meirihluta að veita bæjarstjórn sveitarfélagins umboð til þess að ræða við Alcan um uppbyggingu álvers á Keilisnesi. Fjölmargar hugmyndir komu fram á fundinum um aðra atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu, þar á meðal stórskipahöfn fyrir allt höfuðborgarsvæðið við Keilisnes.

Um 150 manns úr þessu 1100 manna sveitarfélagi suður með sjó sóttu fundinn sem haldinn var til þess að ræða um nýtingu svokallaðrar álverslóðar á Keilisnesi. Ríkið keypti lóðina sérstaklega undir álver fyrir sautján árum þegar viðræður stóðu yfir við þrjú álfyrirtæki í Atlantsálhópnum um álver á Keilisnesi. Nú hafa forsvarsmenn Alcan kannað hvort lóðin standi enn til boða undir álver en þeir leita hófanna víða eftir að stækkun í Straumsvík var felld í íbúakosningu.

Bæjarstjórinn í Vogum sagði fyrir fundinn í gær að fjárhagslegur ávinningur bæjarins af álveri yrði umtalsverður. Tekjur sveitarfélagsins, sem nú eru um 400 milljónir gætu tvöfaldast.

Skiptar skoðanir voru á meðal þeirra 30 fundarmanna sem tóku til máls á fundinum í Vogum í gær. Benti einn fundarmanna á að nýta mætti Keilisnes undir annað en álver, þar á meðal hafnarmannvirki við stórskipahöfn fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Farið væri að þrengja að skipafélögum í höfnum höfuðborgarsvæðisins og hafnaraðstæður við Keilisnes væru hinar ákjósanlegustu.

Róbert Ragnarsson bæjarstjóri sagðist mjög ánægður með fundinn og að meira yrði gert af slíku í framtíðinni. Aðspurður um næstu skref í málinu sagðist hann eiga von á því að hafa samband við forsvarsmenn Alcan eftir hádegið og kanna grundvöll fyrir viðræðum um álversuppbyggingu á Keilisnesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×