Innlent

Alcan greinir frá framtíðaráformum sínum í dag

Alcan ætlar síðar í dag að greina frá framtíðaráformum í uppbyggingu áliðnaðar hérlendis. Forsvarsmenn Alcans funduðu í morgun með ráðamönnum í Þorlákshöfn sem þykir nú einn álitlegasti kosturinn fyrir nýtt álver.

Fulltrúar Alcan funduðu í gær með Landsvirkjunarmönnum og iðnaðarráðherra og í morgun hafa þeir rætt við starfandi forsætisráðherra og heimsótt Þorlákshöfn. Markmið þeirra er að finna stað þar sem þeir geta nýtt orkuna sem átti að fara til Straumsvíkur til að þjóna framleiðslaukningu eftir stækkun álversins þar.

Hafnfirðingar settu hins vegar strik í þau áform með því að segja nei íbúakosningu. Bæjarstjóri sveitarfélagsins Ölfuss segir Alcan hins vegar velkomið þangað en hann ræddi við Alcan menn í morgun.

Það að Alcan menn hafi nú í annað sinn á skömmum tíma heimsótt Þorlákshöfn og auk þess mætt með heila sendinefnd þangað í morgun, daginn sem kynna á framtíðaráform fyrirtækisins, veldur því að menn draga þá ályktun að þeim þyki þessi staður fýsilegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×