Innlent

Ráðstefna um ábyrga fiskveiðistjórnun

Sendiráð Íslands í London stóð í samvinnu við Landssamband íslenskra útvegsmanna fyrir ráðstefnu um ábyrga fiskveiðistjórnun. Ráðstefnan fór fram í byrjun júní. Markmið hennar var að kynna íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið og ástand fiskistofna við Íslandsstrendur fyrir breskum innflytjendum og seljendum íslenskra sjávarafurða að því er fram kemur fram í Stiklum, vefriti viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins. Þetta er gert í ljósi þess að breski markaðurinn er langstærsti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir.

Nýjustu niðurstöður Hafrannsóknastofnunar um ástand stofna við Ísland voru sérstaklega kynntar. Einar Kr. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, ávörpuðu ráðstefnuna og gerðu annars vegar grein fyrir stefnu stjórnvalda og hins vegar stefnu LÍÚ í íslenskum sjávarútvegsmálum.

Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur hjá LÍÚ, fjallaði um íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið, útflutning á sjávarafurðum og umhverfismerkingar sjávarafurða og Þorsteinn Sigurðsson hjá Hafrannsóknastofnun fjallaði um stöðu og ástand fiskistofna við Ísland.

Alls sóttu 45 aðilar ráðstefnuna, m.a. fulltrúar allra helstu matvöruverslanakeðja Bretlands og forstöðumenn íslensku sjávarútvegsfyrirtækjanna í Bretlandi. Þetta er í fyrsta skipti sem efnt er til slíkra upplýsinga- og skoðanaskipta á milli kaupenda íslenskra sjávarafurða í Bretlandi og seljenda með þátttöku íslenskra stjórnmálamanna, embættismanna og vísindamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×