Innlent

Umfjöllun RÚV um Jónínu Bjartmarz alvarlegt brot á siðareglum

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur kveðið upp þann úrskurð að Ríkisútvarpið og fréttamaður þess, Helgi Seljan, hafi brotið alvarlega gegn siðareglum blaðamanna með umfjöllun sinni um Jónínu Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra, og um veitingu ríkisborgararéttar til sambýliskonu sonar hennar.

Málið kom upp í lok aprílmánaðar, aðeins hálfum mánuði fyrir þingkosningar, og varð áberandi í kosningabaráttunni. Jónína Bjartmarz kærði umfjöllun Ríkissjónvarpsins um málið, bæði Kastljóss sem og fréttastofu sjónvarps. Siðanefnd Blaðamannafélagsins hefur nú úrskurðað að alvarlega hafi verið brotið gegn siðareglum félagsins. Umfjöllunin hafi verið röng og misvísandi og til þess fallin að gera kæranda tortryggilegan.

Greinilega megi sjá að ekki hefur verið aflað nægilegra upplýsinga til að gefa rétta mynd af málinu. Fréttamaðurinn virðist ekki hafa kynnt sér hvernig með umsóknir um ríkisfang sé farið. Rangfærslurnar hafi verið leiðréttar smám saman en lituðu engu að síður alla umfjöllunina. Látið hafi verið undir höfuð leggjast að afla grundvallarupplýsinga í viðkvæmu máli. Þau vinnubrögð brjóti í bága við þá grein siðareglna Blaðamannafélagsins þar sem segi: "Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×