Innlent

Vestfirðingum verði komið til bjargar

Össur Skarphéðinsson, ráðherra byggðamála, segir að Vestfirðingum verði komið til bjargar. Hörð orð gagna á víxl á milli áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum vegna gagnrýni á kvótakerfið.

Það ganga hörð orð á milli þingmanna Sjálfstæðisflokksins vegna afstöðunnar til kvótakerfisins í kjölfar veiðiráðgjafar Hafró. Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis og fyrrverandi samgönguráðherra, gagnrýndi kvótakerfið harðlega á sunnudag og undir hans orð tók Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður frá Flateyri.

Staða byggðanna á Vestfjörðum er ekki síst orsök gagnrýninnar. Einar K. Guðfinnson, sjávarútvegsráðherra sýndi þessari gagnrýni nokkurn skilning en það kveður við annan tón hjá Árna Mathiessen, fjármálaráðherra og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.

Í Morgunblaðinu í dag sagði Árni að gagnrýni Einars Odds væri ekki trúverðug og sakaði hann í raun um að hafa stuðlað að því að kvótakerfið væri götótt með því að „berjast fyrir alls konar daga- og sóknarkerfum við hliðina á kvótakerfinu," svo vitnað sé í orð Árna.

En á meðan þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokks munnhöggvast vill ráðherra byggðamála lofa Vestfirðingum betri tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×