Innlent

Rannsakar haglabyssuárás sem tilraun til manndráps

Björn Gíslason skrifar

Lögregla rannsakar mál karlmanns, sem skaut af haglabyssu að eiginkonu sinni í Hnífsdal fyrir tíu dögum, sem tilraun til manndráps. Við slíkum brotum liggur allt að 16 ára fangelsi. Hæstiréttur staðfesti í gær áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum til 3. júlí á grundvelli almannahagsmuna.

Maðurinn, sem er á sextugsaldri, var handtekinn aðfaranótt laugardagsins 9. júní eftir nokkurra klukkustunda umsátur við hús hans í Hnífsdal. Níu manna sérsveit var send frá Reykjavík til þess að fást við manninn enda hafði hann hleypt af byssu sinni inni í húsinu um svipað leyti og konu hans tókst að komast út úr húsinu og til nágranna.

Maðurinn var úrskuðraður í gæsluvarðhald til 15. júní á grundvelli rannsóknarhagsmuna og Héraðsdómur Vestfjarða framlengdi svo gæsluvarðhaldið til 3. júlí.

Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að maðurinn hafi verið drukkinn umrætt kvöld og ógnað konu sinni með einhleyptri hlaðinni haglabyssu. Þegar konan hugðist fara út úr húsinu hljóp skot úr byssu mannins. Fór það svo nálægt konunni að höglin rispuðu hana meðal annars í andliti. Maðurinn heldur því fram að hann hafi ekki ætlað að vinna konunni mein heldur hafi hann misst takið á byssunni við útidyrnar og skot hlaupið af.

Sýslumaðurinn á Ísafirði, sem rannsakar málið, telur hins vegar ekki um slysaskot að ræða heldur tilraun til manndráps. Fór hann því fram á gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna í ljósi þess hve alvarlegt brotið var, en það getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Á það féllst Hæstiréttur og sætir maðurinn gæsluvarðhaldi til 3. júlí eða þar til dómur fellur í máli hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×