Innlent

Mildi að ekki urðu alvarleg slys á fólki

Mildi þykir að ekki urðu alvarleg slys á fólki þegar fullhlaðinn steypubíll valt nærri gatnamótum Sæbrautar og Miklubrautar í morgun. Loka þurfti hluta Sæbrautar vegna slyssins.

Slysið varð með þeim hætti að steypubílnum var ekið vestur Miklubraut og hugðist ökumaðurinn fara þaðan inn á Sæbraut og áfram Reykjanesbraut. Ökumaðurinn virðist hafa misst stjórn á bíl sínum í beygjunni og ók hann á ljósastaur og valt svo upp á eyju á Sæbraut. Mildi má þykja að enginn hafi orðið fyrir steypubílnum þegar hann kom inn á Sæbrautina en fullhlaðinn bíll er um 30 tonnn.

Ökumaður steypubílsins var einn á ferð og tók nokkrar mínútur að ná honum út úr bílnum. Hann var ekki alvarlega slasaður en var fluttur á slysadeild til rannsóknar.

Þar sem báðar akreinar lokuðust við slysið myndaðist umferðarteppa enda um að ræða ein fjölförnustu gatnamót landsins. Var Sæbraut lokað á þessum kafla auk þess sem umferð af Miklubraut yfir á Sæbraut var beint í aðra átt.

Kalla þurfti til 60 tonna krana til þess að rétta steypubílinn við og kom hann á staðinn um ellefuleytið. Búist er við því að hann verði að minnsta kosti klukkustund á vettvangi og verður því væntanlega lokað fyrir umferð um þennan hluta Sæbrautar eitthvað fram í hádegið eða jafnvel til eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×