Innlent

Biðu í sex daga eftir hjálp

Það tók velferðarsvið Reykjavíkurborgar sex daga að bregðast við hjálparbeiðni öldruðu hjónanna sem flutt voru á Landspítala á þriðjudag. Eiginkonan var rúmföst og illa haldin en eiginmaður hennar sem hefur annast hana bað nágrannakonu sína um að kalla á hjálp.

Konan hefur verið rúmliggjandi árum saman en þegar eiginmaður hennar síðan veiktist sjálfur gátu þau hjón enga björg sér veitt. Svo slæmt var ástandið að konan komst ekki einu sinni á salernið til að gera þarfir sínar. Eiginmaðurinn kallaði eftir hjálp nágranna og bað um að hringt yrði eftir aðstoð þar sem hann gat ekki lengur annast konu sína.

Nágranninn, sem vill ekki láta nafn síns getið, hafði samband við velferðarsvið Reykjavíkurborgar á miðvikudag í síðustu viku og óskaði eftir hjálp til handa hjónunum. Daginn eftir, fimmtudag hringdi nágranninn aftur og ítrekaði beiðni sína. Þá var honum tjáð að ekki hefði verið hægt að koma fólkinu til hjálpar vegna veikinda starfsfólks. Á föstudag fyrir viku hringdi nágranninn svo eina ferðina enn og var þá tjáð að hjónin væru komin á skrá. Síðan líður og bíður.

Starfsfólk Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gat af einhverjum ástæðum ekki veitt viðtal í dag. Það er svo á þriðjudag sem fólkinu er fyrst komið til hjálpar, sex dögum eftir að fyrst var óskað eftir aðstoð.

Hjónin voru þá flutt á öldrunardeild Landspítalans í Fossvogi og að sögn deildarlæknis líður þeim eftir atvikum vel. Konan var með sár á fótum sem bundið hafði verið um og þegar sárabindin voru fjarlægð á spítalanum kom í ljós að undir þeim höfðu flugnalirfur gert sig heimkomnar í sárinu. Spítalinn mun svo venju samkvæmt fylgjast með líðan þeirra eftir útskrift sem áætluð er á næstu dögum. Samkvæmt heimildum fréttastofu er aðeins beðið eftir því að búið sé að þrífa íbúðina þeirra og mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×