Innlent

Aldraðir Reykvíkingar fá öryggissíma

Hundrað einstaklingar munu fá virk símtæki með þráðlausum neyðarhnappi sett upp heima hjá sér í haust. Um er að ræða tilraunaverkefni til 6 mánaða. Með öryggissímanum geta notendur náð sambandi við vaktmiðstöð með einu handtaki þar sem sérþjálfað starfsfólk sinnir upplýsingagjöf.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins hafa samið við Öryggismiðstöðina um rekstur Öryggissíma fyrir aldraða. Í tilkynningu segir að öryggissímanum sé ætlað að „auka öryggi og vellíðan notenda félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar, sem sökum aldurs, sjúkdóma, fötlunar eða annarra aðstæðna þurfa á sérþjónustu að halda á heimilum sínum."

Þjónustan sem samningurinn kveður á um felur í sér að frá og með 1. september 2007 verða virk símtæki með þráðlausum neyðarhnappi sett upp hjá 100 einstaklingum sem hafa verið metnir sérstaklega í þörf fyrir þjónustuna. Um er að ræða 6 mánaða tilraunaverkefni.

„Með Öryggissímanum geta notendur með einu handtaki náð sambandi við vaktmiðstöð Öryggismiðstöðvarinnar þar sem sérþjálfað starfsfólk sinnir upplýsingagjöf vegna þjónustu félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar, aðstoðar og ráðleggur sé notandi óöruggur vegna heilsu sinnar eða annarra aðstæðna og setur af stað neyðaraðstoð séu aðstæður þannig að þörf sé á viðbrögðum án tafar." segir ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×