Innlent

Stendur ekki til að einkavæða Íbúðalánasjóð

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra segir að ekki standi til að einkavæða Íbúðalánasjóð eins og sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur lagt til. Ráðherra segist almennt ánægður með niðurstöður nefndarinnar en er sammála því að nauðsynlegt sé að sýna aðhald í komandi kjaraviðræðum.

Sendinefndin hefur að undanförnu kynnt sér íslenskt efnahagslíf og voru niðurstöður hennar kynntar í gær. Árni segist almennt ánægður með álit sendinefndarinnar en vissulega megi alltaf geri betur.

Í áliti nefndarinnar segir að Íbúðalánasjóður sé meðal annars valdur að því að vextir eru háir hér á landi og leggur til að hann verði lagður niður í núverandi mynd eða einkavæddur. Aðspurður segir Árni það ekki standa til en þó sé ástæða til að endurskoða málefni sjóðsins. Slík endurskoðun standi nú yfir.

Í áliti nefndarinnar er ríkisstjórnin einnig hvött til að halda aftur af hækkun launa í komandi kjaraviðræðum. Þessu er Árni sammála en segir að gæta verði sanngirnis. Vissulega þurfi að gæta aðhalds í launaþróun opinbera geirans en líka innan einkageirans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×