Innlent

Krefjast svara um stuðning við stríð í Írak

Stríðið í Írak var rætt í umræðu um störf þingsins á Alþingi í morgun. Valgerður Sverrisdóttir, þingkona Framsóknarflokksins og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Visntri grænna segja augljóst að engin stefnubreyting hafi orðið í málinu þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þess efnis að hún harmi stríðið í Írak.

Geir Haarde, forsætisráðherra benti á að þau Valgerður hafi setið saman í þeirri ríkisstjórn sem lýsti yfir stuðningi við stríðið í Írak. Það væri söguleg staðreynd sem ekki væri hægt að breyta. Með falli Saddams Hussein af valdastóli hafi Írakar fengið tækifæri til breytinga til hins betra þó að mál hafi þróast á annan hátt.

Steingrímur J. Sigfússon sagðist hvergi finna þess stað að yfirflugsheimildir sem veittar voru árið 2003 hefðu verið tímabundnar, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði á dögunum. Steingrímur krafðist því svara um hvort formlegar orðsendingar hefðu verið sendar til sendiherra Bandaríkjanna hér á landi þar sem flugheimildirnar eru afturkallaðar og tóku fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar undir þá spurningu.

Valgerður sagði augljóst að engin breyting hafi orðið í málinu þrátt fyrir yfirlýsingu stjórnarinnar um að hún harmi stríðsreksturinn. „Hver harmar ekki stríðsreksturinn í Írak? Þetta er yfirklór," sagði Valgerður Sverrisdóttir. Steingrímur sté þá á ný í pontu og sagðist vera sammála Valgerði og að heimildirnar sem veittar voru 2003 væru greinilega enn í fullu gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×