Innlent

Annar hinna slösuðu bifhjólamanna er fyrrverandi stjórnarmaður í Sniglunum

Sniglar í hópakstri.
Sniglar í hópakstri. MYND/VG

Annar mannanna tveggja sem slösuðust þegar þeir misstu stjórn á bifhjólum sínum í upp úr miðnætti í nótt er fyrrverandi stjórnarmaður í Sniglunum, Bifhjólasamtökum lýðveldisins. Mennirnir mældust á hátt í 180 kílómetra hraða á Kambabrún og sinntu ekki stöðvunarmerkjum lögreglunnar.

Samkvæmt heimildum Vísis sagði maðurinn sig úr stjórn Sniglanna fyrir skemmstu og hefur formaður samtakanna staðfest þetta í samtali við fréttamann. Maðurinn vildi sjálfur ekki tjá sig um málið.

Mennirnir tveir slösuðust eftir að annar þeirra ók aftan á bíl og missti stjórn á hjólinu. Félagi hans á öðru bifjhjóli missti stjórn á sínu hjóli við slysið og skall í götuna. Áður höfðu mennirnir verið mældir á hátt í 180 kílómetra hraða á Kambabrún og sinntu þeir ekki stöðvunarmerkjum lögreglunnar en juku þess í stað hraðann.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerði þeim fyrirsát við Rauðavatn en þeir komust fram hjá og óku inn á Breiðholtsbrautina á ofsahraða þar til slysið varð í grennd við hestahúsabyggðina í Víðidal.

Bifhjólamaðurinn sem lenti á bílnum hálsbrotnaði en hinn er ekki eins alvarlega slasaður. Ökumaður bílsins sakaði ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×