Innlent

Stórslasaður eftir ofsaakstur

Bifhjólamaður liggur stórslasaður á gjörgæsludeild Landsspítalans eftir að hafa fallið til jarðar á ofsa hraða á Breiðholtsbraut upp úr miðnætti. Tildrög slyssins voru að hann ók aftan á bíl og missti stjórn á hjólinu. Meðal áverka eru hálsbrot.Félagi hans á öðru bifhjóli, sem var honum samferða, missti einnig stjórn á sínu hjóli við slysið og skall í götuna, en hann er ekki eins alvarlega slasaður. Ökumann bílsins sakaði ekki.

Upphaflega mældi lögregla þá á hátt í 180 kílómetra hraða á Kambabrún, en þeir sinntu ekki stöðvunarmerkjum, juku hraðann og hurfu lögreglumönnum á svip stundu. Gerði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þeim því fyrirsát við Rauðavatn, en þeir komust fram hjá og óku inn á Breiðholtsbrautina á ofsa hraða, þartil slysið varð í grennd við hesthúsabyggðina í Víðidal.

Frá því að Selfosslögreglan mældi hraða þeirra á kambabrún og þartil Reykjavíkurlögreglan mældi þá aftur við Hólmsá, liðu ekki nema réttrúmlega sjö mínútur þannig að þeir hafa ekið á yfir tvö hundruð kílómetra hraða að meðaltali alla þessa leið. Mennirnir, sem báðir eru á fertugsaldri, eru reyndir bifhjólamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×