Innlent

Sóðaskapur og hávaði má ekki rýra gildi miðborgarinnar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður Miðborgar Reykjavíkur.
Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður Miðborgar Reykjavíkur. MYND/365

Tryggja verður að vaxandi sóðaskapur og hávaði í kjölfar reykingabanns rýri ekki gildi miðborgarinnar að mati Júlíusar Vífils Ingvarsson, formanns Miðborgar Reykjavíkur. Hann segir það á ábyrgð veitingamanna að koma í veg fyrir sóðaskap fyrir framan staðina en telur jafnfram nauðsynlegt að gefa mönnum tíma til að finna lausnir.

„Það vantar reynslu á þetta bann," sagði Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður Miðborgar Reykjavíkur. „Veitingamenn og aðrir eru enn að fóta sig og reyna finna leiðir til þess að þetta geti gengið farsællega. En vissulega er það á ábyrgð rekstraraðila að það sé ekki sóðaskapur fyrir utan þeirra dyr. "

Íbúar í miðbæ Reykjavíkur hafa kvartað mikið til lögreglu vegna hávaða fyrir utan skemmtistaði eftir að reykingabannið tók gildi. Þá hefur fólk einnig kvartað mikið undan sóðaskap vegna sígarettustubba.

Fyrsti stjórnarfundur Miðborgar Reykjavíkur verður haldinn í dag og gerir Júlíus fastlega ráð fyrir að þetta mál beri á góma. „Við munum fara yfir þetta mál. Það er mikilvægt að þetta rýri ekki gildi miðborgarinnar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×