Innlent

KR-ingar í erfiðri stöðu

MYND/Gísli Baldur

KR-ingar sitja einir á botni Landsbankadeildar karla eftir að liðið steinlá 3-1 fyrir ÍA á Skipaskaga í kvöld. Bjarni Guðjónsson kom ÍA yfir eftir um 20 mínútna leik og Helgi Pétur Magnússon skoraði annað mark heimamanna á síðustu andartökum fyrri hálfleiks.

Kári Steinn Reynisson skoraði svo þriðja mark ÍA eftir aðeins 15 sekúndur í síðari hálfleik og gerði út um leikinn. Varamaðurinn Björgólfur Takefusa minnkaði muninn fyrir KR undir lokin en lengra komst KR ekki. KR er aðeins með eitt stig eftir fimm leiki.

Íslandsmeistarar FH töpuðu í kvöld sínum fyrstu stigum í Landsbankadeildinni í sumar þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Fylki á heimavelli sínum í Kaplakrika. Tryggvi Guðmundsson og Valur Fannar Gíslason fengu báðir rautt spjald undir lok leiksins fyrir slagsmál. FH er áfram á toppnum með 13 stig en þar á eftir kemur Valur með níu stig.

Þá vann HK góðan 2-1 sigur á Fram í uppgjöri nýliðanna í deildinni. Jón Þorgrímur Stefánsson og Rúnar Páll Sigmundsson skoruðu mörk HK gegn Fram en Jónas Grani Garðarsson minnkaði muninn fyrir Fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×