Innlent

Ferðamenn flykkjast út í Vigur

Ferðamannastraumur í Vigur í Ísafjarðardjúpi hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og á góðum sumardegi heimsækja hátt í 300 manns eyjuna. Þar er líka eitt stærsta æðarvarp landsins og stundum má sjá þar æðarkóng á vappi.

Vigur er ein þriggja eyja í Ísafjarðardjúpi og liggur úti fyrir minni Skötufjarðar. Sigling út í eynna tekur aðeins um hálfa klukkustund.

Sjóferðir fara út í Vigur alla daga og er það helst landinn sem sækir í friðsældina í eynni

Íbúar Vigurs hafa tekið á móti ferðamönnum í tæp 18 ár og hefur straumurinn út í eynna aukist jafnt og þétt.

Elsta byggingin í Vigur er vindmylla sem var byggð um 1840. Auk þess er í Vigur elsti bátur landsins, happafleytan Vigur-Breiður sem er áttæringur og var smíðaður um aldamótin 1800. Hann var notaður allt til ársins 2000 til að flytja sauðfé milli lands og eyjar.

Vigur ku líka henta ágætlega til sýninga á myndlist að því er Marsibil Kristjánsdóttir hefur komist að en hún heldur myndlistasýningu í eynni i allt sumar.

Í eynni er eitt stærsta æðavarp landsins og 2500 til 3000 æðakollur verpa þar ár hvert. Kollurnar láta ferðamenn ekkert á sig fá, eins og sjá má á þessum myndum, svo framarlega sem þeir koma ekki of nærri.

Útlitið getur skipt æðakollur máli eins og önnur dýr. Æðarkolla sem varð á vegi fréttamanna úti í eynni vildi heldur sjaldséðan og fagran æðarkóng en venjulegan æðarblika sem báðir reyndu að ganga í augun á henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×