Innlent

Valgerður orðin varaformaður Framsóknarflokksins

Valgerður Sverrisdóttir á miðstjórnarfundinum í dag.
Valgerður Sverrisdóttir á miðstjórnarfundinum í dag. MYND/Stöð 2

Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, var kjörin varaformaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi á Grand-hóteli í dag. Valgerður var ein í kjöri og greiddi alls 101 maður atkvæði. Hlaut Valgerður 85 atkvæði eða 89,5 prósent atkvæða, eitt atkvæði var ógilt og fimm auð. Þá hlutu Siv Friðleifsdóttir og Finnur Ingólfsson fimm atkvæði hvort í embættið.

Valgerður tekur við að Guðna Ágústssyni sem tók við formannsembætti í flokknum á dögunum. Það gerði hann eftir að Jón Sigurðsson sagði af sér eftir að hann náði ekki kjöri á þing.

Fram kemur á vef Framsóknarflokksins að Valgerður hafi sagt að eftir fundinn stæði mikil samheldni og kraftur og vilji til að byggja upp að nýju eftir erfiðar kosningar. Hún hefði gefið Framsókn mikið af sínu lífi en fengið margt í staðinn. Henni hafi verið treyst til góðra verka af félögum sínum í flokknum og fyrir það væri hún þakklát.  Framsókn ætti miðjuna í stjórnmálunum og hana myndi flokkurinn ekki láta af hendi. 

Valgerður sagði einnig að hún tryði því að forysta flokksins yrði samhent í því mikla verkefni sem fram undan væri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×