Innlent

Á ofsahraða frá Mosfellsbæ inn í Hvalfjörð

MYND/Hari

Tuttugu og fjögurra ára karlmaður er í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir að hún veitti honum eftirför í nótt alla leið inn í Hvalfjarðarbotn á miklum hraða.

Lögreglumenn sáu til mannsins á bíl sínum í Mosfellsbæ þar sem hann ók greitt og báðu hann um að stöðva. Því sinnti hann ekki heldur jók hraðanna og ók áfram Vesturlandsveginn.

Maðurinn ók þaðan inn í Hvalfjörðinn og lauk eftirförinni ekki fyrr en inn undir Hvalfjarðarbotni þar sem lögreglumönnunum tókst að aka bíl sínum utan í bíl mannsins og stöðva þannig för hans. Var það um hálfri klukkustund eftir að lögreglan hafði fyrst veitt honum eftirtekt.

Segir lögregla mikla mildi að ekki hafi orðið slys á fólki enda ók maðurinn á upp undir 200 kílómetra hraða þegar hann fór hraðast. Maðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum lyfja og verður hann yfirheyrður síðar í dag þegar víman rennur af honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×