Innlent

Íslenskar kýr njóta áfram hollrar útiveru

Gissur Sigurðsson skrifar
MYND/GVA

Dönsku dýraverndarsamtökin gangast nú fyrir undirskriftasöfnun til að tryggja dönskum kúm að minnsta kosti 150 daga útivist á ári. Íslenskir bændur sammæltust nýverið um að íslenskar kýr fengju áfram að njóta útivistar og hollrar hreyfingar.

75 þúsund Danir hafa þegar skrifað undir kröfuna. Hún er sett fram vegna þess að með tilkomu svonefndra verksmiðjufjósa er hætt að hleypa kúnum út á sumrin. Samtökin segja að þetta hafi skaðleg áhrif á heilsu þeirra auk þess sem danskur landbúnaður vilji hafa þá ímynd að mjólkurvörur komi úr hraustum útivistarkúm.

Hér á landi fer stórum tæknivæddum kúabúum fjölgandi líkt og í Danmörku. Sést það best á því að á 20 árum hefur mjólkurframleiðendum fækkað um rúmlega þúsund hér á landi en framleiðslan aukist.

Þóróllfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, sagði í viðtali við Fréttastofu Stöðvar tvö að útiganga kúa hafi einmitt komið til umræðu á samkomu bænda fyrir stuttu og þar hafi menn verið sammmála um að tryggja þeim áfram útivist og hreyfingu.

Reyndar væri slíkt bundið í reglur um aðbúnað nautgripa en engin vilji væri til að breyta þeim reglum. Þar er kúnum tryggð útivist í 56 daga á ári enda sumarið styttra hér en í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×