Innlent

Margir þröskuldar enn í vegi fyrir álveri í Helguvík

Gunnar Valþórsson skrifar

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, segir mjög marga þröskulda vera í vegi fyrir álveri í Hegluvík, þrátt fyrir orkusölusamning Orkuveitunnar og Norðuráls. Þetta kom fram í máli Þórunnar á Alþingi í morgun. Kolbrún Halldórsdóttir, þingkona Vinstri grænna kvaddi sér hljóðs um störf þingsins og spurði umhverfisráðherra um álit hennar á samningnum.

Þórunn benti á að þrátt fyrir að skrifað hefði verið undir samninginn á dögunum þá væru í honum fjölmargir fyrirvarar og að undirskriftin væri ekki ávísun á álver. Þórunn minnti einnig á, að fyrirheit um álver væri ekki sama og ákvörðun um álver.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG sagði að staðfest væri að stóriðjustefnan lifi góðu lífi í nýrri ríkisstjórn. Hann sagði að Samfylkingin hefði gert út á stóriðjustopp í kosningabaráttunni en að nú væri komið annað hljóð í strokkinn.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra benti á þá staðreynd að allir orkusölusamningar sem skrifað hefur verið undir séu háðir samþykki Alþingis, fari virkjanir vegna þeirra inn á óröskuð háhitasvæði.

Kolbrún Halldórsdóttir fór þá aftur í pontu, fremur óhress í bragði, og sagði augljóst á orðum iðnaðarráðherra að Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin ætli sér að keyra samninginn í gegn í krafti meirihlutavalds síns. Það hafi meirihlutinn sýnt á fyrstu dögum þingsins og því væri ekki ástæða til að ætla annað en að það verði einnig gert í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×