Fótbolti

Eyjólfur Sverrisson íhugar ekki að segja af sér

AFP
"Þetta er gríðarlega svekkjandi og við töpuðum leiknum á 11 mínútum þar sem við fáum á okkur fjögur mörk og svo óskemmtilegt mark þarna í lokin. Strákarnir eru virkilega niðurlútir og miður sín," sagði Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari í viðtali á Sýn eftir stórtap íslenska liðsins fyrir Svíum ytra.

Hörður Magnússon spurði Eyjólf hvað hefði átt sér stað í vörn íslenska liðsins þegar Svíarnir skoruðu fimmta markið (hægt er að sjá myndband af markinu hér á Vísi). "Þeir heyrðu flaut og sáu dómarann benda eitthvað og gáfu bara frá sér boltann. Svíarnir virtust ekki alveg átta sig á þessu heldur, en þetta mark var kannski lýsandi fyrir þessar mínútur í lok fyrri hálfleiks og í upphafi þess síðari. Fyrir utan það áttum við ágætis spretti og fengum tvö færi sem hefðu geta dottið okkar megin - en okkur var refsað illilega.

Það var mikið einbeitingarleysi hjá strákunum og við fengum á okkur tvö mörk úr hornum sem er hlutur sem á ekki að gerast.

Ungu strákarnir voru reyndar að standa sig nokkuð vel og átu ágætisleik. Það er ekkert út á það að setja og ég treysti þeim alveg. Það voru ellefu mínútur og tvö horn sem gerðu út um þennan leik.," sagði Eyjólfur. Hann var spurður að því hvort hann íhugaði að segja af sér eftir tapið í kvöld.

"Nei, ég geri það ekki. Það er mikið verk eftir. Þetta er okkar níundi leikur og þetta er bara eins og undirbúingstímabil. Við erum enn að prófa okkur áfram og reyna að finna réttu blönduna í þetta. Það er mikil endurnýjun í liðinu og ég tel mig eiga eftir mikið verk," sagði Eyjólfur og var að lokum spurður hvort hann teldi sig eiga möguleika á að snúa gengi liðsins til betri vegar í næstu leikjum. "Ekki spurning," svaraði landsliðsþjálfarinn í samtali við Hörð Magnússon á Sýn í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×