Innlent

Surtseyjarsýning í Þjóðmenningarhúsinu

Vera Einarsdóttir skrifar
Magnús Kristinsson, stjórnarformaður Toyota og Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands undirrita samninginn.
Magnús Kristinsson, stjórnarformaður Toyota og Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands undirrita samninginn.

Í tilefni af því að 40 ár eru liðin frá lokum Surtseyjargossins stendur nú yfir sýning í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu sem ber heitið: Surtsey - jörð úr ægi. Þar er myndunar- og þróunarsaga Surtseyjar rakin frá myndun hennar og fram til dagsins í dag. Meðal annars eru sýndar ljósmyndir og kvikmyndir sem hafa verið teknar af Surtseyjareldum og fram á þennan dag. Einnig er spáð fyrir um framtíð eyjunnar og þróun lífríkis næstu 120 árin.

Surtsey hefur verið vöktuð af jarðvísindamönnum og líffræðingum frá því gosinu lauk. Lífríkið hefur tekið miklum breytingum síðustu árin og verður sífellt fjölbreyttara.

Í Janúar 2007 var Surtsey tilnefnd á heimsminjaskrá UNESCO. Forsendur tilnefningarinnar voru þær að eyjan sé einstakt dæmi um þróunarsögu jarðar og þróun lífríkis.

Í dag var undirritaður samningur á milli Toyota og náttúrufræðistofnunar Íslands. Hann kveður á um að Toyota styrki árlegar vöktunarferðir Náttúrufræðistofnunar til Surtseyjar næstu þrjú árin. Í tilefni af undirritun samningsins er aðgangur á sýninguna ókeypis til 19. júní.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×