Innlent

Dæmdur fyrir að ætla að selja yfir 400 e-töflur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í 22 mánaða fangelsi fyrir að hafa í fórum sínum hátt í 420 e-töflur sem ætlaðar voru til sölu. Töflurnar fundust á heimili foreldra mannsins í fyrrasumar.

Faðir hans hafði verið handtekinn vegna gruns um fíkniefnasölu og við húsleit fundust um 12 pakkningar af amfetamíni sem móðir ákærða sagði að nota hefði átt í fimmtugsafmæli. Í framhaldinu var leitað í herbergi ákærða og fundust þar 418 e-töflur.

Maðurinn gaf fyrst þær skýringar að að hann hefði fundið e-töflur úti í móa en viðurkenndi svo að hafa fengið þær til sölu. Út frá þeim framburði og framburði vitna þótti sannað að hann hefði gerst sekur um fíkniefnabrot. Þar sem um mikið magn var að ræða þótti dómurum ekki ástæða til að skilorðsbinda dóminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×