Innlent

Móta stefnu í málefnum barna af erlendum uppruna

Efla á íslensku- og móðurmálskennslu fyrir börn af erlendum uppruna í grunnskólum Reykjavíkur, skýra verklagsreglur við innritun slíkra barna í skóla og koma á laggirnar vinafjölskyldum fyrir fjölskyldur barna af erlendum uppruna til þess að bæta aðlögun og virkni barnanna í reykvískum skólum. Þannig hljóma tillögur vinnuhóps á vegum borgarinnar sem falið var að fara fjalla um stöðu barna af erlendum uppruna í grunnskólum Reykjavíkur.

Menntaráð borgarinna samþykkti á fundi sínum í gær stefnumótun í málaflokknum og byggist hún á tillögum starfshópsins.

Bent er á að í leikskólum í Efra-Breiðholti eru 28 prósent barna af erlendum uppruna og í Austurbæjarskóla og Fellaskóla er nærri fjórðungur nemenda af erlendum uppruna. Í ljósi þess telur menntaráð brýnt að móta skýra stefnu í málefnum barna af erlendum uppruna.

Vinnuhópurinn leggur til að teymi farkennara sem tala nokkur af algengustu tungumálunum verði sett á fót, aðstoð við heimanám verði aukin og að tungumálaver í Laugalækjarskóla verði nýtt enn frekar til að efla móðurmálskennslu. Móðurmálsnám verður metið sem valgrein frá og með skólaárinu 2008. Áhersla er á að námsefni verði gert með fjölmenningu í huga og að íslenskukunnátta barna af erlendum uppruna verði metin með markvissari hætti. Þá er lagt til að símenntun starfsfólks skóla taki mið af fjölmenningarlegu samfélagi Reykjavíkurborgar.

Enn fremur er tagt er til að allir grunnskólar Reykjavíkurborgar geri sér móttökuáætlun sem felur í sér skýrari verklagsreglur um innritun barna af erlendum uppruna. Lagt er til að fagráðgjöfum sem hafa sérþekkingu á málefnum innflytjenda verði fjölgað og að boðið verði upp á þjónustu túlka við innritun og á foreldrafundum.

Að lokum verða foreldrafélög hvött til að taka þátt í gagnkvæmri aðlögun og stuðlað verður að því að koma á laggirnar vinafjölskyldum fyrir fjölskyldur barna af erlendum uppruna.

Fræðslustjóra Reykjavíkur verður falið að hrinda stefnumótuninni í framkvæmd á kjörtímabilinu en vinnuhópurinn sem vann stefnumótunina heldur áfram að hittast og fylgja tillögunum eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×