Innlent

Húsleit vegna gruns um samkeppnisbrot

MYND/Pjetur

Fulltrúar frá Samkeppniseftirlitinu stormuðu inn á skriftstofur Mjólkursamsölunnar, Auðhumlu og Osta- og smjörsölunnar á Bitruhálsi í morgun vegna gruns um að fyrirtækin hefðu brotið samkeppnislög.

Húsleit Samkeppniseftirlitsins hófst klukkan níu í morgun og eru þeir enn í húsakynninunum. Fram kemur í tilkynningu frá Mjólkursamsölunni að hún hafi kappkostað að lúta lögum um samkeppni.

Verð á grunnframleiðsluvörum fyrirtækisins sé ákveðið af opinberri verðlagsnefnd og hafi Mjólkursamsalan ekkert um þær verðákvarðanir að segja.

„Bæði Mjólkursamslan og Osta- og smjörsalan hafa verið með gegnsætt afsláttarkerfi þar sem tilgreindur er afsláttur sem miðast meðal annars við magninnkaup viðskiptavina fyrirtækjanna. Að auki hafa fyrirtækin boðið ákveðnar framleiðsluvörur sínar tímabundið á sérstöku tilboðs- og kynningarverði. Samkeppniseftirlitið hefur verið upplýst um þessi viðskiptakjör," segir í tilkynningu Mjólkursamsölunnar.

Þá segir enn fremur í tilkynningunni að töluvert hafi verið um sameiningar innan mjólkuriðnaðarins á síðustu árum og hafi Mjólkursamsalan upplýst Samkeppniseftirlitið um þá þótt fyrirtækinu beri ekki skylda til þess. Sameiningarnar miði að hagræðingu sem komi neytendum til góða. Nefna megi þá verðstöðvun á mjólk og mjólkurafurðum sem nú er í gildi.

Ekki hefur náðst í forsvarsmenn Samkeppniseftirlitsins til þess að leita skýringa á húsleitinni. Þess ber þó að geta að Mjólka, sem er eina fyrirtækið í íslenskum mjólkuriðnaði sem starfar utan hins hefðbundna greiðslumarkskerfis landbúnaðarins, hefur í tvígang á síðustu mánuðum leitað til Samkeppniseftirlitsins vegna meintra samkeppnisbrota MS.

Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, staðfestir þetta í samtali við Vísi og segir kvartað hafi verið undan því að MS og Osta- og smjörsalan hafi beitt markaðsráðandi stöðu sinni á mjólkurvörumarkaði með undirboðum til kaupenda. Hann viti ekki hvort aðgerðir Samkeppniseftirlitsins tengist kvörtunum Mjólku en það verði þó að teljast líklegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×