Innlent

Bæjarráð Bolungarvíkur vonsvikið með skýrslu Hafró

Gunnar Valþórsson skrifar
MYND/Vilmundur

Í ályktun Bæjarráðs Bolungarvíkur sem samþykkt var nú í morgun er lýst miklum vonbrigðum með nýúkomna skýrslu Hafrannsóknarstofnunar. Bæjarráðið segir að verði farið að ráðum stofnunarinnar muni það þýða 1200 tonna skerðingu í aflaheimildum á slægðum þorski í Bolungarvík og að útflutningsverðmæti frá bænum dragist saman um 300 milljónir króna á ársgrundvelli.

Bæjarráðið segir einnig að tillögur Hafró séu til þess fallnar að auka samþjöppun í sjávarútvegi. Þá er bent á að í upphafi hafi aflamarkskerfið verið búið til með það að markmiði að stækka þorskstofninn og styrkja byggðir í landinu. „Það hefur algjörlega brugðist," segir að lokum í ályktuninni.

Ályktunin fer hér á eftir í heild sinni:

„Bæjarráð Bolungarvíkur lýsir yfir miklum vonbrigðum með nýútkomna skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um ástand nytjastofna á Íslandsmiðum. Þar koma m.a. fram tillögur um stófelldan niðurskurð á leyfilegum hámarksafla í þorski á næsta fiskveiðiári. Nái tillögur stofnunarinnar fram að ganga þýðir það að aflaheimildir Vestfirðinga af slægðum þorski skerðast um 6.000 tonn og um 1.200 tonn sé aðeins horft til Bolungarvíkur. Á ársgrundvelli má ætla að útflutningsverðmæti frá Bolungarvík dragist af þessum völdum saman um 300 milljónir króna.

Ljóst er að þessar tillögur Hafrannsóknarstofnunar munu hafa gríðarleg áhrif nái þær fram að ganga að hluta til eða öllu leyti. Tillögurnar eru til þess fallnar að auka enn á samþjöppun sjávarútvegi þar sem stærri fyrirtæki kaupa upp þau minni. Atburðir síðustu vikna sýna að slík viðskipti geta auðveldlega kippt stoðunum undan tilvist sjávarþorpa á landsbyggðinni. Þegar lagt var upp með aflamarkskerfið árið 1983 var markmiðið að stækka þorskstofninn og styrkja byggðir í landinu. Það hefur algjörlega brugðist."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×