Innlent

Lygalaupur afhjúpaður á lögreglustöð

MYND/RE

Piltur á tvítugsaldri reyndi að blekkja lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í gær til að komast hjá því að hljóta sekt vegna ölvunarakstur. Pilturinn hafði kvöldið áður keyrt ölvaður inn í garð í Kópavogi og flúið af vettvang. Daginn eftir mætti hann svo á lögreglustöðina og tilkynnti að bíl sínum hefði verið stolið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kom pilturinn, sem er sautján ára, á lögreglustöð síðdegis í gær og kvaðst ekki finna bílinn sinn. Taldi hann líklegt að honum hefði verið stolið.

Við nánari athugun kom í ljós að bílnum hafði verið ekið inn í garð í Kópavogi nóttina áður og ökumaður hlaupið af vettvangi. Dráttarbíll var kallaður til og því var bíll unga mannsins á bak og burt þegar hann leitaði hans daginn eftir. Pilturinn varð að vonum ánægður með að bíllinn væri fundinn. Málinu var hins vegar ekki lokið af hálfu lögreglunnar sem var ekki sannfærð um sannleiksgildi frásagnar piltsins.

Við nánari yfirheyrslu viðurkenndi pilturinn að hafa sjálfur verið undir stýri umrædda nótt. Hann játaði sömuleiðis að hafa verið undir áhrifum áfengis þegar óhappið átti sér stað. Mál piltsins fer því sína leið í kerfinu og má hann búast við ökuleyfissviptingu og fjársekt að sögn lögreglunnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×