Innlent

Íslenski fáninn á barnafötum á Spáni

Jón Örn Guðbjartsson skrifar

Verslanakeðjan, C&A hefur í sumar selt barnaflíkur á Spáni með eftirlíkingu af íslenska fánanum. Samkvæmt íslenskum lögum er óheimilt að bjóða útlendar vörur með myndum af þjóðfánanum. Þórhallur Vilhjálmsson, lögfræðingur hjá forsætisráðuneytinu, segir að lögreglunni beri að taka málið til meðferðar.

Í einni sumarlínu C&A hefur verið lögð áhersla á að nota eftirlíkingar af íslenska fánanum en um þessar mundir eru norrænir þjóðfánar í tísku á peysum og kuldaflíkum.

Eftirlíkingar af fána Norðmanna hafa verið vinsælar á útivistarflíkum til að skapa trausta ímynd auk þess sem fáninn vísar til sögufrægra norskra heimsskautafara.

Ítalskt-bandaríska fyrirtækið Napapijri notar norska fánann í merki sínu og á ýmsum vörum. Samkvæmt heimildum fréttastofu var Napapijri veitt leyfi af norskum ráðamönnum til að nota norska fánann með þessum hætti. Það fékkst þó ekki staðfest hjá fyrirtækinu í dag. Enginn á Íslandi gæti hins vegar veitt C&A leyfi til að nota íslenska fánann með sama hætti því það varðar við lög.

Að sögn Þórhalls Vilhjálmssonar, lögfræðings hjá forsætisráðuneytinu, er fátt annað til ráða en að kæra þetta tilvik og taka til meðferðar hjá lögreglu. Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins tekur í svipaðan streng og segir lögin mjög skýr í þessu efni.

Jón H.B. Snorrason, aðstoðar lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins telur að málið sé hins vegar utan lögsögu íslensku lögreglunnar. Ef það varði við lög komi það til kasta lögreglunnar á Spáni. Aðstoðarlögreglustjóri telur hins vegar torsótt að sanna að íslenski fáninn sé hér á ferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×