Innlent

Krónan veiktist eftir að skýrsla Hafró var birt

Krónan veiktist um rúm tvö prósent í dag þegar markaðir voru opnaðir á ný eftir að Hafrannsóknarstofnun kynnti dökka skýrslu sína um stöðu þorskkvótans.

Gengi krónunnar hefur ekki veikst jafn mikið á einum degi í um ár. Hafa ber þó í huga að gengi krónunnar hefur verið mjög sterkt undanfarið og mun sterkara en búist hafði verið við.

Ljóst er að fari svo að þorskvóti yrði á næsta fiskveiðiári settur niður í hundrað og þrjátíu þúsund tonn, líkt og Hafrannsóknarstofnun leggur til, þá hefði það gífurleg áhrif á sjávarútveginn.

Sérfræðingar á fjármálamarkaðnum sem fréttastofa ræddi við í dag telja að markaðurinn verði í nokkurri óvissu þar ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að hve miklu leyti hún muni fylgja hugmyndum Hafrannsóknarstofnunar.

Greiningardeild Kaupþings spáir því að ekki verði gengið jafn langt og Hafrannsóknarstofnun leggur til og aflamark næsta fiskveiðiárs verði 155 þúsund tonn. Forsætisráðherra segir það ekki koma sér á óvart að markaðurinn bregðist við fréttunum.

Stjórn LÍÚ fundaði í dag um málið. Fulltrúar Hafrannsóknarstofnunar mættu á fundinn og kynntu stjórnarmönnum skýrslu sína. Stjórnin ætlar ekki að grípa til neinna aðgerða að svo stöddu.

Málið var rætt á Alþingi í dag og sögðu þingmenn stjórnarandstöðunnar það ótækt að ekki væri hægt að kalla saman sjávarútvegsnefnd þar sem hún hefur ekki verið skipuð vegna breyttrar nefndarskipunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×