Innlent

Gerðu aðsúg að lögreglu á dansleik á Höfn

Frá Höfn í Hornafirði.
Frá Höfn í Hornafirði.

Gerður var aðsúgur að lögreglumönnum við eftirlit á sjómannadagsdansleik á Höfn í Hornafirði á laugardag og beitti lögregla piparúða til að verja hendur sínar gagnvart ólátaseggum.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Eskifirði, sem sinnir meðal annars lögreglueftirliti á Höfn, að lögreglumaður hafi verið sleginn í andlitið í átökunum og gistu tveir fangageymslur vegna þessa. Þá hefur ein líkamsárás verið kærð til lögreglu. Enn fremur var mikil unglingadrykkja í bænum á föstudagskvöld og stóð lögreglan í ströngu við að taka áfengi af börnunum.

Alls voru dansleikir á fimm stöðum í umdæmi lögreglunnar á Eskifirði á laugardag og fór allt vel fram á öðrum stöðum en Höfn ef undan er skilinn Neskaupstaður en þar kom til handalögmála og einn gisti fangageymslur.

Þá hafði lögreglan í nógu að snúast við að stöðva ölvaða ökumenn en fimm menn voru kærðir fyrir ölvunarakstur um helgina. Alls hafa 35 ökumenn verið teknir fyrir ölvun við akstur í ár í umdæmi lögreglunnar á Eskifirði miðað við 15 á sama tíma í fyrra. „Þessi staðreynd er mikið áhyggjuefni lögreglunnar en jafnframt samfélagsins alls. Ekki þarf að tíunda það frekar hér hvaða afleiðingar þessi háttsemi hefur iðulega í för með sér," segir lögreglan á Eskifirði í tilkynningu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×