Innlent

Vaxandi ásókn í laxveiðileyfi

Ásókn í laxveiðileyfi fer vaxandi ár frá ári þrátt fyrir hækkandi verð og er þegar uppselt í nokkrar ár áður en veiðitíminn hefst í fyrarmálið.

Veiði hófst að vísu í svonefndum Straumum á mótum Hvítár og Norðurár þann fyrsta en í gær hafði ekkert veiðst þar enn. Hins vegar verða Norðurá og Þverá-Kjarrá opnaðar fyrir veiði á morgun en veiði í þessum ám markar jafnan upphaf veiðitímans.

Samkvæmt athugun fréttastofu Stöðvar tvö færist það í vöxt að stórfyrirtæki kaupi upp dýrustu dagana í bestu ánum sem yfirleitt er í júlí. Þá sýna útlendingar vaxandi áhuga á ný eftir nokkra lægð. Sú lægð er að nokkru skýrð með of háu verði vegna hás gengis íslensku krónunnar. Þá er laxveiði á undanhaldi eins og í Noregi og Skotlandi þannig að íslensku árnar verða fýsilegri í augum útlendinga.

Verðlag hefur ekki hækkað mikið frá því í fyrra að það hækkaði víða talsvert. Dýrasti dagurinn í Noðrurá kostar nú 150 þúsund krónur fyrir eina stöng en hátt í hundrað þúsundum meira í Laxá á Ásum sem enn er dýrasta laxveiðiá landsins.

Veiðimenn sem eru að tygja sig til veiða í Norðurá og Þverá-Kjarrá eru bjartsýnir á veiði í fyrramálið þar sem vatn óx í ánum um helgina og einnig var stórstreymt en laxinn ber jafnan að landi í stórstreymi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×