Innlent

Þriggja ára drengur slapp með skrekkinn

MYND/RE

Betur fór en á horfðist í gær þegar bíll sem í var þriggja ára gamall drengur hafnaði á verslunarhúsi eftir að hafa runnið stjórnlaust yfir tvær götu og tvo grasbala. Talið er að drengurinn hafi óvart losað handbremsuna með þeim afleiðingum að bíllinn rann af stað. Þetta er í annað sinn á fáeinum dögum þar sem smábarn kemur við sögu í umferðaróhappi á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt heimildum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu stóð bíllinn við heimili drengsins og var ekki í gangi þegar stráksi byrjaði að fikta í handbremsunni. Það var faðir drengsins sem uppgötvaði að bíllinn var skyndilega á bak og burt.

Hafði ökutækið þá runnið stjórnlaust úr innkeyrslunni og yfir tvær götur og tvo grasbala og hafnaði loks á verslunarhúsi nokkra tugi metra frá heimilinu. Að sögn lögreglu þykir mikil mildi að ekki fór verr en töluverð umferð er um aðra götuna sem bíllinn rann yfir.

Þetta er í annað sinn á fáeinum dögum þar sem smábarn kemur við sögu í umferðaróhappi á höfuðborgarsvæðinu. Í síðustu viku átti tæplega fjögurra ára drengur hlut að málið þegar ekið var á tvo kyrrstæða bíla. Sá drengur var skilinn eftir í bíl sem var í gangi á bifreiðastæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×