Innlent

Fjögurra leitað og einn í yfirheyrslu

Mennirnir tveir, sem fluttir voru meðvitundarlausir á slysadeild Landspítalans í nótt eftir fólskulegar líkamsárásir í Reykjavík, eru báðir á batavegi. Tveggja árásarmanna er enn leitað og sömuleiðis tveggja, sem tengjast ráni í nótt.

Fyrri maðurinn var sleginn niður á mótum Hverfisgötu og Klapparstígs um þrjú leitið í nótt og blæddi mikið úr sári á höfði hans. Hann komst til meðvitundar í morguon og var útskrifaður fyrir hádegi. Vitni gátu lýst árásarmanninum, sem leiddi til handtöku hans skömmu síðar. Hinn maðurinn var barinn til óbóta fyrir utan hús í Seljahverfi. Hann komst líka til meðvitundar í dag , en dvelur enn á Landsspítalanum til eftirlits. Vitni sáu tvo menn berja hann og koma sér undan á bíl. Þau skráðu númerið og leitar lögregla nú bílsins og mannanna.

Einnig leitar lögreglan að ungri konu , sem lokkaði roskinn karlmann inn í húsasund ofan við Laugaveginn í nótt, og samverkamanns hennar, sem réðst á manninn, rændi hann öllum verðmætum og sló svo niður.

Loks er verið að yfirheyra ungan mann, sem framdi rán í 10-11 versluninni við Dalveg um níu leitið í morgun. Hann ógnaði afgreiðslufólki með barefli og hafði verðmæti á brott með sér. Lögreglumenn hlupu hann uppi þar sem hann var á leið heim til sín í Breiðholti. Áður hafði hann reynt að fela hluta þýfisins í undirgöngum á leiðinni. Þrátt fyrir að hann sé ekki nema um tvítugt, á hann langan afbrotaferil að baki, en hefur ekki áður hótað ofbeldi, svo vitað sé.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×