Erlent

Annan og Clinton í Árósum í kvöld

MYND/Reuters

Búist er við að um fjögur þúsund manns hlýði á þá Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem flytja munu fyrirlestur í NRGI-höllinni í Árósum í kvöld.

Mikill viðbúnaður hefur verið í höllinni af þeim sökum og sprengjuleitarmenn leitað í hverjum krók og kima hallarinnar áður en leiðtogarnir stíga á stokk. Þá verður leitað á öllum gestum á fyrirlestrinum.

Eftir því sem fram kemur á vef Berlingske Tidende mun Annan ræða um starf sitt hjá Sameinuðu þjóðunum og alnæmisvandann í Afríku en Clinton hyggst ræða um ástandið í Miðausturlöndum og listina að miðla málum.

Miðaverð á fyrirlestur leiðtoganna er allt frá 15 þúsund krónum til 75 þúsund króna en það er langt í frá ókeypis að fá þá félaga Clinton og Annan til fyrirlestrahalds. Þannig greinir Berlingske frá því að Clinton hafi þénað um 2,3 milljarða króna á því að halda fyrirlestra víða um heim á síðustu sex árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×