Innlent

Rúmlega 400 hjól boðin upp hjá lögreglunni

Rúmlega 400 reiðhjól verða boðin upp hjá óskilamunadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á laugardaginn. Að sögn lögreglu eru hjólin sem boðin verða upp bæði ný og gömul.

Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að um sé að ræða reiðhjól sem hafa fundist í óskilum víða í umdæminu og enginn hefur hirt um að sækja.

 

 

Halldór Halldórsson framkvæmdastjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Vísi reiðhjólin vera af öllum stærðum og gerðum. „Það eru mörg ágætis hjól þarna, bæði nýleg og gömul. Við reynum að ganga úr skugga um að þau séu í þokkalegu ástandi áður en við seljum þau."

Fjölmargir aðrir munir hafa safnast upp hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en annað uppboð er fyrirhugað síðar á árinu.

Lögreglan vill ítreka að uppboðið verður að þessu sinni haldið í húsnæði Vöku að Eldshöfða 4 í Reykjavík. Hefst það klukkan hálft tvö á laugardaginn.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×