Innlent

Hreini aldrei boðið í bátana

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. MYND/Baldur

Skýrslutöku af Hreini Loftssyni, stjórnarformanni Baugs, í tengslum við endurákæru í Baugsmálinu lauk upp úr hádegi. Hann var við skýrslutökuna spurður út í störf sín fyrir Baug og auk þess um flesta ákæruliði í málinu.

Hreinn var jafnframt spurður um það hvort hann hefði fregnað að félög tengd Jóni Ásgeiri Jóhannessyni ættu hlut í bátnum Thee Viking sem getið er í 18. ákærulið. Sagðist Hreinn hafa verið í litlum samskiptum við Jón Ásgeir og Jóhannes föður hans á þessum tíma og þá þekkti hann Nordica, félag Jóns Geralds Sullenberger, afar lítið . „Aldrei var mér boðið í þennan bát," sagði Hreinn.

Fram kom í máli Hreins í morgun, í tengslum við yfirheyrslu vegna meintra ólöglegra lánveitinga frá Baugi til Gaums, að hann teldi að markaðnum hefði verið fullkunnugt um að Gaumur, félag Baugsfjölskyldunnar, hefði verið kjölfestufjárfestir í Baugi og að líta mætti á félögin sem viðskiptafélaga.

Hann var meðal annars spurður um hvort hann myndi eftir því að stjórn hefði veitt hluthöfum í Baugi lán til að kaupa hlutafé í Baugi og svaraði því til að hlutafjárútboð fyrirtækisins hefði verið algjörlega í umsjá banka.

Um nokkra ákæruliði, þar á meðal þá sem sneru að meintum bókhaldsbrotum, sagðist Hreinn ekki þekkja nægilega til enda hefði hann sem stjórnarformaður ekki alltaf verið að fletta bókhaldinu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×